Liverpool hafnaði tilboði Leeds

Takumi Minamino hefur ekki átt fast sæti í byrjunarliði Liverpool …
Takumi Minamino hefur ekki átt fast sæti í byrjunarliði Liverpool á leiktíðinni. AFP

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool höfnuðu tilboði Leeds í japanska sóknarmanninn Takumi Minamino. 

Það er Sky Sports sem greinir frá þessu. Minamino, sem er 27 ára gamall, gekk til liðs við Liverpool frá Salzburg árið 2020 en hefur ekki átt fast sæti í byrjunarliðinu frá því hann kom.

Hann á ennþá eftir að byrja sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu en alls hefur hann komið við sögu í átján leikjum liðsins á leiktíðinni og skorað í þeim sex mörk.

Japaninn hefur verið orðaður við brottför frá Liverpool undanfarnar vikur en hann eyddi seinni hluta síðasta tímabils á láni hjá Southampton í ensku úrvalsdeildinni.

Liverpool er sagt opið fyrir því að selja leikmanninn en félagið vill fá í kringum 15 milljónir punda fyrir hann.

mbl.is