Varnarmaður Chelsea búinn að semja við Real

Antonio Rüdiger er á leið til Real Madrid.
Antonio Rüdiger er á leið til Real Madrid. AFP/Glyn Kirk

Þjóðverjinn Antonio Rüdiger, varnarmaður enska knattspyrnuliðsins Chelsea er búinn að semja við spænska stórliðið Real Madrid samkvæmt hinum áreiðanlega blaðamanni Fabrizio Romano.

Romano segir Rüdiger semja við Real til ársins 2026 og að allt sé frágengið á milli hans og félagsins. Tilkynnt verði um félagsskiptin eftir tímabil. Rüdiger fer til Madrídar á frjálsri sölu en samningur hans við enska félagið rennur út í sumar.

Hann hefur leikið gífurlega vel í vörn Chelsea síðan samlandi hans Thomas Tuchel tók við liðinu og er því ljóst að um mikinn missi er að ræða fyrir liðið. Talið er að varnarmennirnir Marcos Alonso, Andreas Christensen og César Azpilicueta muni allir einnig róa á önnur mið en þeir hafa allir verið orðaðir við Barcelona.

Það verður því að teljast líklegt að Chelsea muni kaupa varnarmenn til fylla í skörðin í sumar.

mbl.is