De Bruyne sá um Úlfana

Kevin De Bruyne fagnar þriðja marki sínu.
Kevin De Bruyne fagnar þriðja marki sínu. AFP/Paul Ellis

Manchester City er skrefi nær Englandsmeistaratitlinum í fótbolta eftir afar sannfærandi 5:1-útisigur á Wolves í kvöld.

Kevin De Bruyne stal senunni því Belginn skoraði fjögur fyrstu mörk City. De Bruyne kom City yfir strax á sjöundu mínútu en fjórum mínútum síðar jafnaði Wolves með marki frá Leander Dendoncker.

Eftir það tók De Bruyne völdin því hann kom City aftur yfir á 16. mínútu og átta mínútum síðar kom hann Manchester-liðinu í tveggja marka forystu, 3:1. Belginn er réttfætur en hann skoraði öll mörkin með vinstri fæti.

Hann var ekki hættur því fjórða markið kom á 60. mínútu. Raheem Sterling skoraði fimmta markið á 84. mínútu og þar við sat.

City er með þriggja stiga forskot á Liverpool þegar tvær umferðir eru eftir og dugir því fjögur stig úr tveimur síðustu leikjunum til að verða Englandsmeistari annað árið í röð.

Wolves 1:5 Man. City opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is