Sannfærandi sigur Tottenham í grannaslagnum

Son Heung-Min og Harry Kane fagna fyrsta marki Tottenham í …
Son Heung-Min og Harry Kane fagna fyrsta marki Tottenham í kvöld. AFP/Paul Ellis

Tottenham sigraði Arsenal 3:0 í mikilvægum leik í baráttunni um fjórða sætið í ensku úrvalsdeildinni á Tottenham Stadium í kvöld.

Harry Kane skoraði tvö mörk í leiknum í kvöld en Heung-Min Son skoraði eitt mark. Leikmenn Arsenal léku manni færri frá 33. mínútu en þá fékk Rob Holding að líta sitt annað gula spjald eftir brot á Heung-Min Son.

Þessi sigur Tottenham þýðir að liðið er aðeins einu stigi á eftir Arsenal í baráttunni um fjórða sætið í ensku úrvalsdeildinni þegar tvær umferðir eru eftir í deildinni.

Leikmenn Arsenal byrjuðu betur á Tottenham Stadium í kvöld en Tottenham varðist mjög vel og beitti hættulegum skyndisóknum eins og þeir eru þekktir fyrir. En þegar það fór að líða á fyrri hálfleik fóru heimamenn að bíta frá sér og á 22. mínútu kom Harry Kane liði Tottenham yfir með marki úr vítaspyrnu, 1:0. Cedric Soares var dæmdur brotlegur en hann virtist ýta á bakið á Heung-Min Son.

Á 26. mínútu fékk Rob Holding gult spjald fyrir brot á Heung-Min Son og aðeins sjö mínútum síðar braut Rob Holding aftur á Son og fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt spjald.

Rob Holding hjá Arsenal fær rauða spjaldið í leiknum í …
Rob Holding hjá Arsenal fær rauða spjaldið í leiknum í kvöld. AFP

Manni fleiri héldu heimamenn áfram að herja á vörn Arsenal. Á 37. mínútu tók Heung-Min Son hornspyrnu sem Rodrigo Bentancur náði að skalla á fjarstöngina og þar var Harry Kane mættur og hann stangaði boltann inn og kom Tottenham í 2:0.

Leikmenn Tottenham byrjuðu seinni hálfleik með látum. Strax á 47. mínútu leiksins var Davinson Sanchez með sendingu inn á teiginn þar sem Harry Kane var. Harry Kane missti boltann frá sér en Heung-Min Son var mættur á svæðið og setti boltann í netið, 3:0.

Eftir þetta mark voru heimamenn mun meira með boltann en voru ekki að skapa sér mikið. Besta færi Arsenal kom á 80. mínútu en þá átti Nuno Tavares góða sendingu á Martin Ödegaard sem átti fínt skot en Hugo Lloris var með allt á hreinu í markinu og varði skotið frá þeim norska.

Það eru aðeins tvær umferðir eftir í ensku úrvalsdeildinni og því mun barátta þessara liða um fjórða sætið halda áfram. Tottenham mætir Burnley á heimavelli á sunnudaginn og svo eiga þeir útileik gegn Norwich sunnudaginn 22. maí. Arsenal mætir aftur á móti Newcastle á útivelli á mánudaginn og svo er það heimaleikur gegn Everton sunnudaginn 22. maí. 

Tottenham 3:0 Arsenal opna loka
90. mín. Það eru tvær mínútur í uppbótartíma hér á Tottenham Stadium.
mbl.is