Burnley upp fyrir Leeds – Leicester náði í stig á Brúnni

Leikmenn Burnley fagna marki Ashley Barnes í kvöld.
Leikmenn Burnley fagna marki Ashley Barnes í kvöld. AFP/Geoff Caddick

Burnley nældi í mikilvægt stig í botnbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla þegar liðið heimsótti Aston Villa í kvöld. Lauk leiknum með 1:1-jafntefli og þannig lauk einnig leik Chelsea og Leicester City.

Ashley Barnes kom Burnley yfir á lokamínútu fyrri hálfleiks með marki úr vítaspyrnu sem var dæmd eftir að Emiliano Buendía hafði fellt Maxwel Cornet innan vítateigs.

Buendía bætti hins vegar fyrir mistök sín þegar hann jafnaði metin strax í upphafi síðari hálfleiks með góðu skoti á lofti eftir fyrirgjöf John McGinn.

Villa komst nokkrum sinnum nálægt því að ná forystunni en Nick Pope var afar vel á verði í marki Burnley.

Undir lok leiks komst Burnley hársbreidd frá því að stela sigrinum þegar Connor Roberts stýrði fyrirgjöf Charlie Taylor að marki, Emiliano Martínez varði skotið í stöngina, Roberts náði boltanum aftur og lagði út á Wout Weghorst sem var í dauðafæri en Tyrone Mings komst í veg fyrir skot hans.

Í uppbótartíma fékk varamaðurinn Matthew Lowton beint rautt spjald fyrir ljóta tæklingu á Calum Chambers.

Að lokum kom það þó ekki að sök og lokatölur 1:1.

Það þýðir að Burnley er komið upp í 17. sæti og er nú með 35 stig, jafnmörg og Leeds United sem er í 18. og síðasta fallsætinu en Burnley er með mun betri markatölu. Aðeins ein umferð er eftir í ensku úrvalsdeildinni.

Villa heldur kyrru fyrir í 14. sæti með 45 stig.

Í leik Chelsea og Leicester City á Stamford Bridge kom James Maddison gestunum yfir strax á sjöttu mínútu með flottu skoti fyrir utan teig.

Á 34. mínútu jafnaði Marcos Alonso metin fyrir með laglegu skoti á lofti eftir fyrirgjöf Reece James.

Þar við sat og sættust liðin á sitt hvort stigið.

Chelsea var þegar búið að tryggja sér Meistaradeildarsæti og er í þriðja sæti deildarinnar.

Leicester siglir hins vegar lygnan sjó í níunda sæti deildarinnar.

mbl.is