Aston Villa styrkir sig

Boubacar Kamara í síðasta leik sínum með Marseille um liðna …
Boubacar Kamara í síðasta leik sínum með Marseille um liðna helgi. AFP/Sylvain Thomas

Franski varnartengiliðurinn Boubacar Kamara mun í sumar ganga til liðs við enska knattspyrnufélagið Aston Villa þegar samningur hans við franska félagið Marseille rennur út.

Kamara, sem er 22 ára og getur einnig leyst stöðu miðvarðar, er afar reynslumikill þrátt fyrir ungan aldur.

Spilaði hann 130 deildarleiki fyrir Marseille á sex árum og skoraði í þeim þrjú mörk.

Þá á hann 48 landsleiki að baki fyrir yngri landslið Frakklands og hefur verið valinn í A-landsliðshópinn, án þess þó að spila fyrir það.

Hann er einnig gjaldgengur í landslið Senegals og hefur Aliou Cissé landsliðsþjálfari þrýst á hann að velja að spila fyrir hönd Afríkumeistaranna. Kamara hefur þó enga ákvörðun tekið enn í þeim efnum.

mbl.is