„Að ræða málin bjargaði lífi mínu“

Dominic Calvert-Lewin skorar dramatískt sigurmark fyrir Everton gegn Crystal Palace …
Dominic Calvert-Lewin skorar dramatískt sigurmark fyrir Everton gegn Crystal Palace síðastliðið fimmtudagskvöld. AFP/Oli Scarff

Dominic Calvert-Lewin, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Everton, hefur opnað sig um andlega erfiðleika sem hann glímdi við á nýafstöðnu tímabili.

Everton var í harðri fallbaráttu í ensku úrvalsdeildinni stærstan hluta tímabilsins en tryggði sæti sitt með frábærum 3:2-endurkomusigri á Crystal Palace síðastliðið fimmtudagskvöld, þar sem Calvert-Lewin skoraði sigurmarkið.

„Til að byrja með vil ég þakka ykkur stuðningsmönnum fyrir að standa við bakið á okkur á þessu tímabili og fyrir að veita okkur innblástur allt til lokadags tímabilsins.

Aðalmarkmiðið varð það að halda sér í ensku úrvalsdeildinni og ég trúi því að það hefði ekki tekist án ótrúlegs stuðnings ykkar,“ skrifaði hann á instagramaðgangi sínum.

Calvert-Lewin glímdi við tíð meiðsli á tímabilinu og tókst því aðeins að spila 17 deildarleiki í heildina, þar sem hann skoraði alls fimm mörk. Kvaðst hann hafa glímt við ýmsa andlega erfiðleika undanfarna mánuði.

„Á persónulegum nótum hef ég oft þurft að grafa djúpt innra með mér á nokkrum tímapunktum á þessu tímabili og hef upplifað einhverja erfiðustu tíma ferils og lífs míns til þessa. Ástin og stuðningurinn hjálpaði mér að komast í gegnum þá.

Eitt sem ég lærði á tímabilinu er að allir, hvar sem þeir eru staddir í lífinu, eiga í einhverri baráttu sem fólk veit ekkert um, og það er engin skömm að því að finna einhvern til þess að tala við á opinskáan hátt og vera heiðarlegur við sjálfan þig um hvernig þér líður í raun og veru,“ skrifaði Calvert-Lewin.

Réði hann ungum karlmönnum þá sérstaklega heilt.

„Til allra ungu kónganna sem eru að byrgja tilfinningar sínar inni þá ráðlegg ég ykkur að að ræða málin við vin, fjölskyldumeðlim eða einhvern annan sem mun hlusta, að ræða málin bjargaði lífi mínu.

Að gera það mun koma ykkur í skilning um að hlutirnir eru aldrei jafn slæmir og þeir virðast vera, og þið munuð átta að mótsögnin við að sýna sannan styrk felst í því að horfast í augu við veikleika þína.“

„Að ljúka tímabilinu á jákvæðum nótum skipti mig öllu máli, njótið hlésins stuðningsmenn Everton, þið eigið það skilið. Megi pressan halda áfram að vera forrétindi,“ skrifaði Calvert-Lewin að lokum.

mbl.is