Hreinskilinn eftir brottför frá Chelsea: „Biðst afsökunar á hvernig þetta fór“

Danny Drinkwater í leik með Chelsea fyrir tæpum fimm árum.
Danny Drinkwater í leik með Chelsea fyrir tæpum fimm árum. AFP

Knattspyrnumaðurinn Danny Drinkwater mun í sumar yfirgefa Chelsea eftir fimm mögur ár þar sem hann var fjórum sinnum lánaður út til annarra liða. Í kveðju á instagramaðgangi sínum skafar Drinkwater ekkert ofan af hlutunum og biðst afsökunar á því hvernig gekk, eða gekk ekki.

Hann var keyptur frá Leicester City sumarið 2017 eftir að hafa staðið sig frábærlega þar, til að mynda tímabilið 2015/2016 þegar liðið stóð uppi sem Englandsmeistari.

„Tími minn hjá Chelsea hefur runnið sitt skeið, það er í raun og veru mjög skrítið að skrifa þetta. Ég sjálfur, félagið og stuðningsmenn erum mjög vonsviknir með útkomuna, það er enginn vafi á því.

Meiðsli, hvernig farið hefur verið með mig, vandamál utan vallar, lítill spiltími... listinn yfir afsakanir gæti verið endalaus en ég myndi ekki og get ekki breytt því sem hefur þegar gerst.

Ég ætla að líta á jákvæðu hlutina undanfarin ár þar sem ég hef leikið með frábærum leikmönnum, hef verið þjálfaður af mögnuðum knattspyrnustjórum, hitti stórkostlegt fólk, bjó á fallegum stöðum, ferðaðist um heiminn og vann til fleiri titla.

Fótbolti er mögnuð íþrótt en fyrir báða aðila voru þetta viðskipti sem fóru úrskeiðis, það er eins og svart og hvítt og það verður. Ég vil biðja stuðningsmenn Chelsea afsökunar á því hvernig þetta fór, ég hefði elskað það ef þið hefðuð fengið að sjá mig upp á mitt besta í treyjunni, gerandi það sem ég elska,“ skrifaði Drinkwater á instagram í gær.

Drinkwater lék aðeins sex leiki í öllum keppnum á árunum fimm hjá Chelsea og var lánaður til Burnley, Aston Villa, tyrkneska liðsins Kasimpasa og Reading, þar sem hann lék á nýafstöðnu tímabili. Nú er hann samningslaus.

mbl.is