Grétar til starfa hjá Tottenham

Grétar Rafn Steinsson á fréttamannafundi í janúar með þjálfurum karlalandsliðsins.
Grétar Rafn Steinsson á fréttamannafundi í janúar með þjálfurum karlalandsliðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grétar Rafn Steinsson, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, er á leið í starf hjá enska félaginu Tottenham Hotspur.

Netmiðillinn The Athletic segir í dag að Grétar hafi verið ráðinn svokallaður „frammistöðustjóri“, eða „performance director“ hjá félaginu. Sagt er að hann muni vinna mikið með eldri og yngri liðum félagsins og vinna náið með yfirmanni knattspyrnumála, Fabio Paratici.

Grétar hætti störfum hjá Everton í desember á síðasta ári eftir þrjú ár þar en hann var fyrst yfirnjósnari félagsins utan Bretlandseyja og síðan aðstoðarmaður Marcel Brands, yfirmanns knattspyrnumála hjá Everton.

Hann hefur frá áramótum verið í tímabundnu starfi hjá Knattspyrnusambandi Íslands sem tæknilegur ráðgjafi og mun ljúka störfum þar með stuðningi við starfslið kvennalandsliðsins þegar það fer í lokakeppni Evrópumótsins á Englandi í næsta mánuði.

Grétar er fertugur og lék sjálfur 126 leiki með Bolton í ensku úrvalsdeildinni á árunum 2008 til 2012 en lauk ferlinum ári síðar með Kayserispor í Tyrklandi. Hann lék 46 A-landsleiki fyrir Íslands hönd á árunum 2002 til 2012. Grétar lauk, eftir ferilinn, námi í knattspyrnustjórnun í Hollandi, starfaði hjá AZ Alkmaar til að byrja með en var síðan yfirmaður knattspyrnumála hjá enska C-deildarfélaginu Fleetwood Town frá 2015 til 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert