Newcastle nær í landsliðsmarkvörð

Nick Pope er kominn til Newcastle.
Nick Pope er kominn til Newcastle. AFP/Paul Ellis

Enska knattspyrnufélagið Newcastle gekk í dag frá kaupum á markverðinum Nick Pope frá Burnley en kaupverðið var ekki gefið upp.

Sky Sports segir hinsvegar að það sé 10 milljónir punda. Hann hefur skrifað undir fjögurra ára samning við félagið.

Pope er þrítugur og lék 155 úrvalsdeildarleiki með Burnley frá því hann kom til félagsins árið 2016 og hann spilaði 36 af 38 leikjum liðsins á síðasta tímabil þegar það féll úr deildinni.

Þá hefur Pope verið í enska landsliðshópnum undanfarin ár og á sex landsleiki að baki.

Newcastle mætir Nottingham Forest í fyrstu umferð úrvalsdeildarinnar 6. ágúst.

mbl.is