Fá að lágmarki eins árs bann

Áhorfendur í ensku úrvalsdeildinni munu sæta bönnum hagi þeir sér …
Áhorfendur í ensku úrvalsdeildinni munu sæta bönnum hagi þeir sér ekki skikkanlega. AFP/Ian Kington

Ensk úrvalsdeildarfélög hafa í sameiningu tekið ákvörðun um að stuðningsmenn sem gerist uppvísir að glæpsamlegri hegðun á leikjum liðanna muni fá að lágmarki eins árs bann frá leikvöngum þeirra allra.

Í sumar ákvað enska úrvalsdeildin ásamt ensku deildakeppninni, EFL, að koma á fót sjálfvirkum bönnum. Var sú ákvörðun tekin í kjölfar ýmissa óspekta stuðningsmanna mánuðina á undan, þar sem áhorfendur brutu sér til að mynda leið inn á keppnisvelli og réðust á leikmenn. Notkun blysa og reyksprengja gerði einnig gjarna vart við sig.

Á fundi úrvalsdeildarfélaga var svo ákveðið að stuðningsmenn sem hegði sér með þetta ósæmilegum hætti verði sjálfkrafa úrskurðaðir í að minnsta kosti eins árs bann.

Slík bönn munu ná til bæði heima- og útileikja.

mbl.is
Loka