Vill elta stjórann til Chelsea

Leandro Trossard gæti farið til Chelsea.
Leandro Trossard gæti farið til Chelsea. AFP/Adrian Dennis

Belgíski knattspyrnumaðurinn Leandro Trossard hefur áhuga á að færa sig frá Brighton yfir til Chelsea, líkt og knattspyrnustjórinn Graham Potter gerði á dögunum.

Trossard lék undir stjórn Potters hjá Brighton og var lykilmaður hjá liðinu. Alls skoraði Trossard 20 mörk og lagði upp 13 til viðbótar undir stjórn enska stjórans.

„Potter fór til Chelsea og nú er orðrómur um að ég sé á sömu leið. Auðvitað væri það spennandi. Ég vil samt bara fara til Chelsea ef ég fæ að spila, en ekki til að setjast á bekkinn,“ sagði Trossard við Het Nieuwsblad í Belgíu.

Trossard er samningsbundinn Brighton út tímabilið og má fara frítt frá félaginu eftir leiktíðina, er samningurinn rennur út.  

mbl.is