Leikur ekki meira með Arsenal fyrir jól

Emile Smith Rowe, til vinstri, fagnar marki með Arsenal í …
Emile Smith Rowe, til vinstri, fagnar marki með Arsenal í ágústmánuði. AFP/Glyn Kirk

Miðjumaðurinn Emile Smith Rowe leikur væntanlega ekki meira með enska knattspyrnuliðinu Arsenal fyrir jól eftir að hafa gengist undir aðgerð í vikunni.

Félagið skýrði frá því í dag að Smith Rowe hefði glímt við nárameiðsli undanfarna mánuði og lítið spilað af þeim sökum og eftir ítarlega skoðun skérfræðinga hefði verið ákveðið að hann færi í aðgerð til að komast fyrir þau. Hún hefði farið fram í London fyrir nkkrum dögum.

Vonast er til þess að Smith Rowe hefji æfingar á ný í desember en keppni í úrvalsdeildinni liggur niðri frá 13. nóvember til 26. desember vegna heimsmeistaramótsins í Katar.

Smith Rowe er 22 ára gamall og hefur verið í röðum Arsenal frá 10 ára aldri. Hann hefur leikið þrjá landsleiki fyrir Englands hönd.

mbl.is