Rekinn frá Sevilla og efstur á blaði Úlfanna

Julen Lopetegui.
Julen Lopetegui. AFP/Cristina Quicler

Spænski knattspyrnustjórinn Julen Lopetegui var í gærkvöld leystur frá störfum sínum hjá Sevilla eftir 1:4-tap á heimavelli gegn Borussia Dortmund í Meistaradeild Evrópu. Wolverhampton Wanderers er áhugasamt um að ráða hann sem knattspyrnustjóra félagsins.

Úlfarnir hafa lengi verið áhugasamir um að ráða Lopetegui, sem hefur á ferlinum meðal annars stýrt stórliði Real Madríd, spænska karlalandsliðinu og portúgalska liðinu Porto.

Bruno Lage var á dögunum látinn taka pokann sinn hjá Úlfunum og því hafa eigendur enska félagsins, kínverski fjárfestahópurinn Fosun, endurvakið áhuga sinn á Lopetegui, en hópurinn vildi ráða hann árið 2016, þegar Fosun festi kaup á félaginu.

Þá samþykkti Lopetegui hins vegar að taka við spænska landsliðinu og Nuno Espírito Santo var ráðinn en samkvæmt The Guardian munu nú Úlfarnir fara í nánari viðræður við Lopetegui.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert