Hádramatískur stórslagur á Brúnni

Casemiro skorar jöfnunarmarkið í uppbótartíma.
Casemiro skorar jöfnunarmarkið í uppbótartíma. AFP/Glyn Kirk

Chelsea og Manchester United skildu jöfn, 1:1, í dramatískum stórslag í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Bæði mörkin komu á mögnuðum lokakafla.

United var betri aðilinn í fyrri hálfleik og Marcus Rashford og Antony fengu báðir mjög góð færi til að skora fyrsta markið. Kepa Arrizabalaga varði hins vegar mjög vel frá Rashford og Antony skaut framhjá.

Hinum megin skapaði Chelsea sér sama og ekki neitt í hálfleiknum og var staðan því enn markalaus í leikhléi.

Seinni hálfleikurinn var stál í stál nánast allan tímann og lítið um færi. Það breyttist fjórum mínútum fyrir leikslok þegar varamaðurinn Scott McTominay braut á öðrum varamanni, Armando Broja, innan teigs og víti dæmt.

Brasilíski Ítalinn Jorginho fór á punktinn, skoraði af miklu öryggi og kom Chelsea yfir. Stefndi allt í að markið væri sigurmark, en svo var aldeilis ekki.  

Á fimmtu mínútu uppbótartímans skoraði Casemiro nefnilega jöfnunarmarkið með glæsilegum skalla og þar við sat. Kepa Arrizabalaga var í boltanum, varði hann í stöngina en þaðan fór hann hársbreidd yfir marklínuna og United-menn fögnuðu vel.

Chelsea er enn í fjórða sæti deildarinnar með 21 stig og United í sætinu fyrir neðan með 20.

Chelsea 1:1 Man. Utd opna loka
90. mín. Luke Shaw (Man. Utd) fær gult spjald Sparkar Azpilicueta niður.
mbl.is