City vann stórslaginn – Liverpool skreið áfram gegn Derby

Ruben Dias og Armando Broja eigast við í kvöld.
Ruben Dias og Armando Broja eigast við í kvöld. AFP/Linsey Parnaby

Manchester City er komið áfram í 16-liða úrslit enska deildabikarsins í fótbolta eftir 2:0-sigur á Chelsea í stórleik 3. umferðarinnar í Manchester í kvöld.

Eftir markalausan fyrri hálfleik skoruðu Riyad Mahrez og Julián Álvarez mörk City-manna með skömmu millibili snemma í seinni hálfleik.

Liverpool þurfti að hafa töluvert fyrir því að leggja C-deildarlið Derby að velli á Anfield. Staðan eftir venjulegan leiktíma var markalaus og í deildabikarnum er farið beint í vítakeppni. Þar skoraði Liverpool úr þremur spyrnum og Derby úr tveimur. Caomin Kelleher markvörður Liverpool var hetja sinna manna því hann varði þrjár vítaspyrnur.

Liverpool rétt marði Derby.
Liverpool rétt marði Derby. AFP/Oli Scarff

Newcastle er komið áfram eftir sigur á Crystal Palace í vítakeppni. Var staðan eftir venjulegan leiktíma 0:0, en Newcastle reyndist sterkara liðið í vítakeppni og vann 3:2.  

Blackburn úr B-deildinni sló úrvalsdeildarlið West Ham óvænt úr leik með 10:9-sigri í vítakeppni. Staðan eftir venjulegan leiktíma var 1:1. Jack Vale skoraði mark Blackburn og Pablo Fornals mark West Ham.

Loks vann Southampton úr úrvalsdeildinni nauman sigur á Sheffield Wednesday úr C-deildinni. Josh Windass kom Sheffield Wednesday yfir á 24. mínútu, en James Ward-Prowse jafnaði úr víti í lok fyrri hálfleiks. Reyndust það einu mörk leiksins og réðust úrslitin því í vítakeppni, þar sem Southampton var sterkara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert