Magnaður seinni hálfleikur er City vann endurkomusigur

Riyad Mahrez kom City í 3:2.
Riyad Mahrez kom City í 3:2. AFP/Oli Scarff

Manchester City gefst ekki upp í eltingaleiknum við topplið Arsenal en liðið vann magnaðan endurkomusigur, 4:2, á Tottenham á Etihad-vellinum í Manchester-borg í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Mahrez skorar fjórða mark City með því að lyfta boltanum …
Mahrez skorar fjórða mark City með því að lyfta boltanum yfir Hugo Lloris. AFP/Oli Scarff

Leiknum var frestað vegna andláts og útfarar Elísabetar Englandsdrottningar í haust en hann er partur af 7. umferð deildarinnar. 

Leikurinn fór rólega af stað en þegar leið á hann færðist fjör í hann. Heimamenn voru meira með boltann en sköpuðu sér fá færi en gestirnir lágu til baka, vörðust skipullega og beittu skyndisóknum. Erling Haaland og Heung-Min Son fengu sitt hvort skallafærið í fyrri hálfleiknum en þeim tókst hvorugum að nýta þau. 

Erling Haaland fagnar jöfnunarmarki sínu.
Erling Haaland fagnar jöfnunarmarki sínu. AFP/Oli Scarff

Það var svo á lokamínútu fyrri hálfleiks sem fyrsta markið kom. Ederson var þá með boltann í marki City en hann gaf mjög vonda sendingu á Rodri sem var með mann í bakinu. Gestirnir unnu boltann sem endaði hjá Dejan Kulusevski og átti hann í engum vandræðum með að setja boltann í netið.

Julian Álvarez kemur City á bragðið þegar hann minnkar muninn …
Julian Álvarez kemur City á bragðið þegar hann minnkar muninn í 2:1. AFP/Oli Scarff

Fjörið í fyrri hálfleiknum var þó ekki búið. Gestirnir komust í skyndisókn, voru fámennir en Harry Kane gerði mjög vel með að koma sér af miklu harðfylgi inn í teiginn hægra megin. Þar negldi hann boltanum á markið af stuttu færi og gat Ederson ekkert gert nema verja beint út í teiginn en þar mætti bakvörðurinn Emerson Royal á ferðinni og stangaði boltann í netið. Staðan í hálfleik var því heldur óvænt 2:0, gestunum í vil.

Emerson Royal fagnar marki sínu ásamt liðsfélögum sínum.
Emerson Royal fagnar marki sínu ásamt liðsfélögum sínum. AFP/Oli Scarff

Eitthvað hefur Pep Guardiola, stjóri City, sagt við sína menn í hálfleik því þeir mættu af ótrúlegum krafti út í seinni hálfleikinn. Eftir einungis sex mínútur minnkaði Julian Álvarez muninn þegar hann setti lausan bolta í teignum í netið af stuttu færi en Hugo Lloris hafði kastað sér á boltann skömmu áður og var því ekki í markinu þegar Álvarez tók skotið. 

Svíinn Dejan Kulusevski fagnar því að hafa komið Tottenham yfir …
Svíinn Dejan Kulusevski fagnar því að hafa komið Tottenham yfir í leiknum. AFP/Oli Scarff

Þremur mínútum síðar jafnaði svo markavélin Erling Haaland metin. Boltanum var þá lyft inn í teig í átt að Riyad Mahrez sem skallaði hann þvert fyrir markið á Haaland sem var mættur eins og gammur til að klára færið.

Það var svo maður leiksins, Riyad Mahrez sem kom City yfir á 63. mínútu. Hann átti þá skot á nærstöngina úr þröngu færi hægra megin í teignum sem Hugo Lloris náði ekki að verja. Það má klárlega setja stórt spurningarmerki við Frakkann í marki Tottenham í þessu marki en hann hefur alls ekki verið góður undanfarið.

Harry Kane með boltann í leiknum. Julian Álvarez og Manuel …
Harry Kane með boltann í leiknum. Julian Álvarez og Manuel Akanji sækja að honum. AFP/Oli Scarff

Á lokamínútu leiksins fullkomnaði svo Mahrez leik sinn. Ederson sparkaði boltanum þá langt fram sem Clement Lenglet ætlaði að taka niður, en það gekk ekki betur en svo að hann missti boltann of langt frá sér svo Mahrez komst fram fyrir hann og kláraði frábærlega með því að lyfta boltanum yfir Hugo Lloris. Lokatölur á Etihad-vellinum því 4:2, heimamönnum í vil.

Með sigrinum minnkaði City forskot Arsenal á toppnum niður í fimm stig. City er í öðru sæti en Arsenal á þó leik til góða og getur náð átta stiga forskoti á nýjan leik. Tottenham er áfram í fimmta sæti, fimm stigum á eftir Newcastle.

Antonio Conte, stjóri Tottenham og Pep Guardiola, stjóri City á …
Antonio Conte, stjóri Tottenham og Pep Guardiola, stjóri City á hliðarlínunni í kvöld. AFP/Oli Scarff
Man. City 4:2 Tottenham opna loka
90. mín. Leik lokið Einum skemmtilegasta leik tímabilsins lokið!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert