Hætti við þegar Lampard var rekinn

Arnaut Danjuma var nánast búinn að semja við Everton þegar …
Arnaut Danjuma var nánast búinn að semja við Everton þegar Frank Lampard var sagt upp störfum. Þá fór hann til Tottenham. AFP/Christof Stache

Arnaut Danjuma, hollenski knattspyrnumaðurinn sem Tottenham fékk lánaðan frá Villarreal á Spáni fyrr í dag, hætti við að fara til Everton þar sem Frank Lampard var sagt upp sem knattspyrnustjóra.

Mikla athygli vakti þegar Danjuma skipti um skoðun á síðustu stundu, eftir að hafa gengist undir læknisskoðun hjá Everton, sem þegar hafði útbúið allt kynningarefni um leikmanninn til að nota þegar hann yrði formlega kynntur til sögunnar en það átti að fara fram í gær.

Danjuma mætti hinsvegar ekki til Liverpool-borgar og hélt í staðinn til London til að ganga frá málum við Tottenham.

Daily Mail segir að leikmaðurinn hafi tekið þessa ákvörðum í kjölfarið á brottrekstri Lampards frá Everton en Lampard hafði verið í lykilhlutverki um að fá Danjuma til félagsins og hafði sannfært hann um að ganga til liðs við Everton, sem situr í næstneðsta sæti úrvalsdeildarinnar.

mbl.is