Óvænt hetja er City sló Arsenal út

Nathan Aké fagnar marki sínu í kvöld ásamt liðsfélögum sínum.
Nathan Aké fagnar marki sínu í kvöld ásamt liðsfélögum sínum. AFP/Oli Scarff

Manchester City er komið áfram í fimmtu umferð enska bikarsins eftir sigur á Arsenal, 1:0, í fjórðu umferð keppninnar á Etihad-vellinum í Manchester.

Fyrri hálfleikurinn var vægast sagt bragðdaufur. Báðum liðum gekk illa að ná upp almennilegu spili og skapa sér færi. Leandro Trossard byrjaði sinn fyrsta leik fyrir Arsenal en hann og Takehiro Tomiyasu fengu báðir ágætis færi en Stefan Ortega, sem leysti Ederson af hólmi í marki City, varði frá þeim. Kevin De Bruyne komst næst því að skora fyrir heimamenn en gott skot hans utan teigs fór hárfínt framhjá fjærstönginni. Hvorugu liðinu tókst að skora í fyrri hálfleiknum og var staðan því markalaus þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn fór af stað eins og sá fyrri en ósköp lítið var að frátta. Eftir rúmlega klukkutíma leik átti varamaðurinn Julian Álvarez þó stangarskot og barst boltinn þaðan til Jack Grealish. Hann klappaði boltanum aðeins í teignum áður en hann lagði hann á Nathan Aké sem kom City yfir með hnitmiðuðu skoti með hægri fæti. Var þetta það fyrsta markverða sem gerðist í seinni hálfleiknum.

Arsenal-liðið reyndi hvað það gat að jafna metin en áfram gekk illa að skapa sér alvöru færi. Að lokum fór svo að City fór með 1:0-sigur af hólmi.

City verður því í pottinum þegar dregið verður í fimmtu umferðina en topplið ensku úrvalsdeildarinnar, Arsenal, er úr leik.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Man. City 1:0 Arsenal opna loka
90. mín. Uppbótartíminn er fjórar mínútur.
mbl.is