Chelsea býður 105 milljónir í Fernández

Enzo Fernández.
Enzo Fernández. AFP/Carlos Costa

Enska knattspyrnufélagið Chelsea hefur lagt fram kauptilboð í argentínska miðjumanninn Enzo Fernández, miðjumann portúgalska félagsins Benfica. Tilboðið hljóðar upp á alls 105 milljónir punda.

The Athletic greinir frá.

Chelsea hefur átt í viðræðum við Benfica allan janúargluggann og vill félagið ólmt festa kaup á Fernández, áður en glugginn lokar annað kvöld. Leikmaðurinn sem lék frábærlega fyrir heimsmeistara Argentínu á HM í Katar í síðasta mánuði.

Útlit var fyrir að enska félagið hefði dregið sig í hlé eftir að Benfica hafnaði nokkrum tilboðum þess fyrr í mánuðinum en til þess að stemma stigu við kapphlaupi um að tryggja sér þjónustu Fernández í sumar hefur Chelsea nú ákveðið að bjóða nær þeirri upphæð sem Benfica hefur verið að óska eftir.

Portúgalska félagið á nú eftir að bregðast við tilboðinu.

mbl.is