Jóhann framlengir við Burnley

Jóhann Berg Guðmundsson í leik með Burnley.
Jóhann Berg Guðmundsson í leik með Burnley. Ljósmynd/@BurnleyOfficial

Jóhann Berg Guðmundsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur framlengt samning sinn við Burnley.

Samningur Jóhanns við félagið átti að renna út í sumar en hann hefur nú verið framlengdur um eitt ár, eða til sumarsins 2024.

Jóhann kom til Burnley sumarið 2016 frá Charlton og á að baki sex tímabil með félaginu í úrvalsdeildinni. Liðið féll síðasta vor og leikur nú í B-deildinni en er þar á toppnum og allt bendir til þess að það verði komið á ný í hóp þeirra bestu næsta haust.

Jóhann er 32 ára gamall og hefur leikið 136 leiki fyrir Burnley í úrvalsdeildinni og skorað í þeim níu mörk. Í vetur hefur hann spilað 20 leiki í B-deildinni og skorað í þeim tvö mörk. Jóhann er tíundi leikjahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi með 82 A-landsleiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert