Með risatilboð frá Sádi-Arabíu

Wilfried Zaha er eftirsóttur.
Wilfried Zaha er eftirsóttur. AFP/Adrian Dennis

Knattspyrnumaðurinn Wilfried Zaha er eftirsóttur þessa dagana en samningur hans við enska úrvalsdeildarfélagið Crystal Palace rennur út í sumar.

Zaha, sem er þrítugur, er uppalinn hjá Palace og hefur leikið með félaginu allan sinn feril, að undanskildum tveimur tímabilum í herbúðum Manchester United þar sem honum tókst aldrei að sýna sitt rétta andlit.

Zaha hefur verið orðaður við fjölda stórliða frá því að ljóst varð að hann myndi yfirgefa Crystal Palace í sumar.

Sportsmail greinir hins vegar frá því að Al-Ittihad í Sádi-Arabíu hafi boðið Zaha samning sem myndi færa honum 200.000 pund í laun á viku, tæplega 140 milljónir íslenskra króna á mánuði.

Zaha á að baki 452 leiki fyrir Crystal Palace þar sem hann hefur skorað 89 mörk og þá á hann að baki 30 A-landsleiki fyrir Fílabeinsströndina.

mbl.is