Ekki nógu góður fyrir Manchester United

Wout Weghorst gekk til liðs við Manchester United á láni …
Wout Weghorst gekk til liðs við Manchester United á láni frá Burnley í janúar. AFP/Lindsey Parnaby

Knattspyrnumaðurinn fyrrverandi Ruud Gullit telur að hollenski framherjinn Wout Weghorst sé ekki nægilega góður til þess að spila fyrir Manchester United og hollenska landsliðið.

Weghorst, sem er þrítugur, gekk til liðs við United í janúarglugganum á láni frá Burnley eftir að hafa slegið í gegn með Hollandi á HM í Katar í lok síðasta árs.

Framherjinn skoraði tvö mörk fyrir Holland á HM en hann hefur byrjað átta leiki fyrir United í ensku úrvalsdeildinni þar sem hann á enn þá eftir að skora sitt fyrsta deildarmark.

Ekki fullkominn leikmaður

„Ég veit satt best að segja ekki hvað mér finnst um hann sem knattspyrnumann,“ sagði Gullit í samtali við hollenska miðilinn Ziggy Sport.

„Að einhverju leyti dáist ég að honum en á sama tíma þá er hann ekki nægilega góður til þess að spila fyrir Manchester United og hollenska landsliðið.

Hann er ekki fullkominn leikmaður og það koma augnablik þar sem þú sérð mjög augljóslega að hann skortir einfaldlega gæði,“ bætti Gullit við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert