Einn sá eftirsóttasti til Arsenal?

Declan Rice á að baki 41 A-landsleik.
Declan Rice á að baki 41 A-landsleik. AFP/Justin Tallis

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Arsenal vonast til þess að krækja í Declan Rice, fyrirliða West Ham, í sumar.

Það er enski miðillinn Evening Standard sem greinir frá þessu en Rice, sem er 24 ára gamall, er uppalinn hjá Chelsea en hann hefur leikið með West Ham frá árinu 2014.

Miðjumaðurinn hefur verið fyrirliði félagsins frá því Mark Noble lagði skóna á hilluna eftir að síðasta keppnistímabili lauk.

Rice á að baki 229 leiki fyrir West Ham þar sem hann hefur skorað 12 mörk og þá á hann að baki 41 A-landsleik fyrir England.

Hann er samningsbundinn West Ham til sumarsins 2024 en talið er að West Ham vilji fá í kringum 100 milljónir punda fyrir miðjumanninn sem hefur einnig verið orðaður við Chelsea, Manchester City og Manchester United.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert