Franskur landsliðsmaður í Liverpool?

Marcus Thuram í leik með Borussia Mönchengladbach.
Marcus Thuram í leik með Borussia Mönchengladbach. AFP/Ina Fassbender

Enska knattspyrnufélagið Liverpool hefur mikinn áhuga á að semja við franska landsliðsmanninn Marcus Thuram.

Spænski miðillinn Fichajes greinir frá. Liverpool þarf að styrkja framlínuna, eftir að Roberto Firmino yfirgefur félagið þegar samningur hans rennur sitt skeið í næsta mánuði. 

Thuram hefur skorað 34 mörk í 111 deildarleikjum með Borussia Mönchengladbach í þýsku 1. deildinni frá árinu 2019. Þar á undan gerði hann 12 mörk í 64 leikjum með Guingamp í heimalandinu.

Sóknarmaðurinn hefur spilað tíu landsleiki fyrir Frakkland en ekki náð að skora í frönsku treyjunni. Hann lagði upp mark á Kylian Mbappé í úrslitaleik HM í Katar í desember.

Thuram verður samningslaus í sumar og getur Liverpool því fengið hann án greiðslu.

mbl.is