Áttunda enska liðið í Evrópukeppni?

Declan Rice spilar væntanlega sinn síðasta leik með West Ham …
Declan Rice spilar væntanlega sinn síðasta leik með West Ham í kvöld en reiknað er með að hann fari til einhvers af stærstu félögunum í sumar. AFP/Justin Tallis

Enska knattspyrnufélagið West Ham getur í kvöld unnið sinn fyrsta titil í 43 ár ásamt því að verða áttunda lið Englands í Evrópumótum karla á næsta keppnistímabili.

West Ham mætir Fiorentina frá Ítalíu í úrslitaleik Sambandsdeildar Evrópu í Prag í kvöld og freistar þess að vinna fyrsta titilinn frá árinu 1980 þegar félagið varð síðast enskur bikarmeistari.

West Ham hefur áður unnið Evróputitil en félagið varð Evrópumeistari bikarhafa árið 1965. Sú keppni var sameinuð UEFA-bikarnum árið 1999.

Vinni West Ham leikinn í kvöld tryggir liðið sér keppnisrétt í Evrópudeildinni næsta vetur og færi beint í riðlakeppnina. Gangi það eftir mun England eiga átta lið í Evrópumótunum.

Manchester City, Arsenal, Manchester United og Newcastle fara í Meistaradeildina.

Liverpool og Brighton verða í Evrópudeildinni og Aston Villa verður í Sambandsdeildinni.

West Ham endaði í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar í vetur en liðið hefur unnið þrettán af fjórtán leikjum sínum í Sambandsdeildinni á tímabilinu, á meðan það vann aðeins ellefu af 38 leikjum sínum í úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert