Viktor Þór í mótlæti í Spa

Viktor Þór (t.v.) hefur betur í keppni um beygju í …
Viktor Þór (t.v.) hefur betur í keppni um beygju í móti í formúlu-3. mbl.is/jamesbearne

Viktor Þór Jensen átti við mótlæti að stríða er keppt var í bresku formúlu-3 mótaröðinni í hinni frægu braut Spa-Francorchamps í Ardennafjöllum í Belgíu um helgina.

Þótt svæðið sé kunnugt fyrir græðandi heitar keldur var keppnin svekkjandi barátta fyrir Viktor Þór sem tókst á við vandamál sem hann fékk ekki stjórnað.

Helgin byrjaði vel er hann var lengst af í öðru sæti á fyrstu æfingu og þriðji að lokum. Á því gat Viktor ekki byggt vegna tæknibilunar í bílnum sem kom í veg fyrir að hann skilaði vélgögnum sem nauðsynleg eru til að fínstilla uppsetningar og vængi.

Fyrir vikið var allt mat á eigin frammistöðu og bílsins eins og að renna blint í sjó. Háði þessi vandi honum alla helgina. Fyrri kappaksturinn lagði hann af stað í sjötta sæti í breska þjóðarflokknum. Á fyrsta hring spretti hann úr spori sem fyrr og vann sig upp í annað sætið í flokknum og tekið einnig fram úr mörgum bílum í alþjóðlega flokknum.

Viktor Þór skorti hins vegar bílhraða til að halda fengnum hlut og varð að sætta sig við sjötta sætið að lokum.

Fyrir seinni kappaksturinn varð hann aftur sjötti í tímatökum. Væntingar hans jukust er hann tók að rigna skömmu fyrir ræsingu því þar með stóð hann jafnfætis öðrum keppendum hvað uppsetningu bílsins varðaði. Þá hafði hann staðið sig vel í rigningarkeppni í Búkarest og því til alls líklegur.

Vel horfði í ræsingunni sem verið hefur sterka hlið Viktors Þór og varð engin breyting þar á nú. Tók hann fram úr a.m.k. þremur bílum á upphafskaflanum. Til allrar óhamingju varð hann hins vegar fyrir því að ógætinn ökuþór hafði ekki vald á bíl sínum í bleytunni í fyrstu beygju og keyrði inn í Viktor Þór.

Framfjöðrun brotnaði og eftir að hafa komið bílnum inn í bílskúr varð Viktor Þór að láta sér nægja að horfa á eftirleikinn. Bílarnir óku á eftir öryggisbíl í þrjá hringi og var þá keppni hætt vegna aðstæðna. Þar með missti hann af gullnu tækifæri til að komast á verðlaunapall. Og með því að falla úr leik gerðist það í fyrsta sinn á árinu að Viktor Þór vinnur ekki stig í móti. Var hann eini ökuþór formúlu-3 sem unnið hafði stig í hverju móti.

Á heimasíðu sinni segir Viktor Þór um gang mála um helgina: „Auðvitað var ég svekktur á stundum þar sem ekki var hægt að ráða bót á vandanum. En ég er samt staðráðinn í að standa mig og átti langt og gagnmerkt samtal við liðsstjórann Alan Docking á heimleiðinni frá Spa. Liðið hefur getið af sér meistara og ég veit að við getum það aftur.

Maður verður að horfa fram á veginn og útilokað er annað en að hlakka til þess að Silverstone er næst á dagskrá. Mikilvægast er að komast fyrir vandann sem hrjáði okkur og verða öflugir.“

Heimasíða Viktors Þórs

mbl.is

Bloggað um fréttina