Kristján Einar upp um sæti í stigakeppninni

Kristján Einar á leið út í brautina í Magny-Cours.
Kristján Einar á leið út í brautina í Magny-Cours.

Kristján Einar Kristjánsson varð í sjötta sæti í kappakstri dagsins í opnu evrópsku formúlu-3 í Magny-Cours í Frakklandi í dag. Hann var fjórði á rásmarki í Copa-flokki og stefndi hærra. Var kominn upp í annað sæti er  keppinautur ók utan í hann og laskaði afturvæng svo hann varð að fara aukaferð inn á þjónustusvæði til viðgerðar.

„Það var árekstur fyrir framan mig og ég var að forðast hann þegar einhver fór utan í mig að aftan. Höggið var ekki mikið högg en nóg til þess að laska afturvænginn svo ég varð að fara inn á viðgerðasvæði,“ sagði Kristján Einar að lokinni keppni.

„Auðvitað eru þetta vonbrigði, en svona er kappakstur og allt er þetta hluti af því að verða betri. Það að komast út aftur eftir viðgerðina og keyra alla keppnina skiptir miklu því öll aksturs- og keppnisreynsla er svo dýrmæt,“ bætti hann við.

Kristján Einar ók frábærlega í gær og var í þriðja sæti þegar innan við hundrað metrar voru eftir. Ofurbjartsýnn keppinautur reyndi þá framúrakstur en ók á Kristján Einar með þeim afleiðingum að báðir enduðu utan brautar.

Kristján Einar var engu að síður úrskurðaður fjórði og ökumaðurinn sókndjarfi, Bruno Palli frá Venezúela, var dæmdur úr fyrir ákeyrsluna og þurfti að ræsa aftastur í dag.

Þrátt fyir áföll helgarinnar vann Kristján Einar sig upp um sæti í stigakeppni ökumanna og er nú sjöundi þeim 13 sem keppa í Copa-flokknum.

Næsta keppnishelgi er á Monza. Þaðan á hann góðar minningar. Þar komst hann í fyrsta sinn á verðlaunapall í formúlukappakstri í fyrra, í hinni bresku formúlu-3.


Kristján Einar reyrður niður í bíl sinn fyrir keppni í …
Kristján Einar reyrður niður í bíl sinn fyrir keppni í Magny-Cours í dag.
Kristján Einar kemur inn í bílskúrareinina í Magny-Cours.
Kristján Einar kemur inn í bílskúrareinina í Magny-Cours.
Kristján Einar og tæknimaður hjá West Tec-liðinu skoða gögn um …
Kristján Einar og tæknimaður hjá West Tec-liðinu skoða gögn um starfsemi bílsins í Magny-Cours.
mbl.is