Óheppni eltir Kristján Einar

Kristján Einar gerður klár til keppni í Monza í dag.
Kristján Einar gerður klár til keppni í Monza í dag.

Óheppnin virðist elta Kristján Einar Kristjánsson á röndum því hann féll úr leik í Monza í dag þegar aðeins rúmur hringur var eftir af fyrri kappakstri helgarinnar. Var hann í öðru sæti í sínum flokki þegar hann snarsnerist út úr brautinni.

Kristján Einar hóf kappaksturinn í öðru sæti í sínum flokki og af tíunda rásstað af alls 21, en báðir flokkar hinnar opnu evrópsku formúlu-3 eru ræstir samtímis af stað.

Kristján Einar keyrði sig um tíma upp í fyrsta sæti í Copa-flokknum í Monzabrautinni. Um miðbik kappakstursins féll hann niður í þriðja sæti en var búinn að vinna sig aftur upp í annað sætið er bíllinn missti rásfestu og snerist.

„Þremur og hálfri mínútu fyrir lok tímaatökunnar var útlitið svolítið svart. Ég kom snemma inn til dekkjaskiptaog var rétt kominn aftur út í  braut þegar rauðu flaggi var veifað og aksturinn stöðvaður. Þegar égfór aftur út voru tæpar fimm mínútur eftir og ég í 17. sæti í heildina og því níunda í flokknum,“ sagði Kristján Einar.

Í blálok tímatökunnar, tveimur síðustu hringjunum, vann hann sig heldur betur upp á við. Endaði með annan besta copa-tímann og hóf keppni næstur á eftir Callum MacLeod, liðsfélaga sínum hjá West Tec, sem var fremstur í flokknum.

Kristján Einar keppir aftur í Monza í fyrramálið kl. 10:30 að íslenskum tíma. Sýnt verður beint frá keppninni í útsendingu á Ríkissjónvarpinu.

Kristján Einar í bílskúrareininni í Monza.
Kristján Einar í bílskúrareininni í Monza.
Kristján Einar leggur af stað út í brautina í Monza …
Kristján Einar leggur af stað út í brautina í Monza í dag.
mbl.is