Haas vill Magnussen

Kevin Magnussen á ferð í kappakstrinum í Mexíkó í gær.
Kevin Magnussen á ferð í kappakstrinum í Mexíkó í gær. AFP

Bandaríska liðið Haas er sagt hafa boðið Kevin Magnussen starf ökumanns fari svo að það endurráði ekki mexíkóska ökumanninn Esteban Gutierrez.

Magnussen er sagður hafa fengið fast tilboð um tveggja ára starf og eru engar kröfur gerðar um að hann komi með styrktarfé með sér.

Haas íhugaði ráðningu danska ökumannsins þegar í fyrra eftir fund hans með liðsstjórunum  Gene Haas og Günther Steiner í Monza 2015. Á endanum tóku þeir Romain Grosjean fram yfir hann.

Það gæti flækt málið og verið hindrun í vegi Magnussen, að Ferrari leggur mikið upp úr því að hafa einn af sínum mönnum sem ökumann hjá Haas sem brúkar vélar frá Ferrari og nýtur þaðan ýmiss konar annarrar tæknilegrar aðstoðar. Er Ferrari sagt hafa lagt að Haas undanfarið að framlengja samning Gutierrez.

Sjálfur mun Gutierrez vera að skoða möguleika hjá öðrum liðum, enda frjálst að fara annað kjósi hann svo.

Svo gæti allt eins farið svo, að Renault bjóði Magnussen upp á nýjan samning. Klásúla um valkost á honum fyrir 2017 rann þó nýverið út og Daninn þannig laus allra mála. En það væri óneitanlega sterkt fyrir hann fari svo að Renault og Haas sláist um þjónustu hans.


Svo kann að fara að þeir verði liðsfélagar á næsta ...
Svo kann að fara að þeir verði liðsfélagar á næsta ári. Kevin Magnussen (t.v.) og Romain Grosjean. AFP
mbl.is