Hamilton broti á undan

Lewis Hamilton á Mercedes ók hraðast á fyrstu æfingu keppnishelgarinnar í Sao Paulo í Brasilíu, var sekúndubroti á undan liðsfélaga sínum, Valtteri Bottas.

Landi Bottas, Kimi Räikkönen á Ferrari, setti þriðja besta tímann  og Max Verstappen á Red Bull átti fjórða besta hringinn.

Í sætum fimm til tíu - í þessari röð - urðu Daniel Ricciardo á Red Bull, Sebastian Vettel á Ferrari, Felipe Massa á Williams, Stoffel Vandoorne á McLaren, Esteban Ocon á Force India og Fernando Alonso á McLaren.

Milli þriggja síðasttöldu munaði aðeins 72 þúsundustu úr sekúndu. Alonso var svo 1,2 sekúndum lengur með hringinn en Hamilton.

mbl.is