Allt öðru vísi nef

Þeir voru ekki sviknir sem biðu eftir því að McLarenbíllinn birtist með nýju trjónuna sem hvíslað hafði verið að væri á leiðinni og partur af umtalsverðri uppfærslu bílsins.

Trjónan nýja er ólík trjónu allra annarra keppnisbíla formúlunnar og óhætt er að segja að hún sé margbrotin og flókin smíð.

Á framendanum eru þrjár trektir sem beina lofti innundir bílinn og upp eftir nefinu er komnir lágir uggar á hvorri hlið þess. Loks hefur teygst á trjónunni fram á við.

Ætlunin með nefinu er að það bæti meðfærileika bílsins en ekki síður að beinlínuhraði hans aukist en það hefur verið helsti akkillesarhæll  MCL33-bílsins eins og hann formlega heitir, ekki síst í tímatökunni.

mbl.is