Met á met ofan hjá Ricciardo

Daniel Ricciardo á Red Bull var í fantaformi í tímatökunni í Mónakó sem lauk rétt í þessu. Bætti hann brautarmetið hvað eftir annað og tryggði  sér ráspólinn. Hann var einnig hraðskreiðastur á æfingunum þremur fram að tímatökunni.

Ricciardo var allan tímann í dag og fimmtudag í sérflokki. Að vísu veitti liðsfélagi hans, Max Verstappen, öfluga viðspyrnu á æfingunum en hann gat ekki tekið þátt í tímatökunni þar sem ekki tókst að skipta um gírkassa í bíl hans í tæka tíð. Orsök þess var að hann ók utan í öryggisvegg á æfingunni í morgun og skemmdi gírkassann við það. Hefur Verstappen því keppni úr síðasta sæti á morgun.

Í allra síðustu atlögu að tíma skaust Sebastian Vettel á Ferrari upp fyrir Lewis Hamilton á Mercedes. Fjórði varð svo Kimi Räikkönen á Ferrari og fimmti landi  hans Valtteri Bottas á Mercedes.

Í sætum sex til tíu -í þessari röð - urðu Esteban Ocon á Force India, Fernando Alonso á McLaren, Carlos Sainz á Renault, Sergio Perez á Force India og Pierre Gasly á Toro Rosso.  Litlu munaði á flestum bílanna og slagurinn um sæti á rásmarki lengstum jafn og tvísýnn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert