Cahill byrjar vel með New York

Tim Cahill í leiknum í nótt.
Tim Cahill í leiknum í nótt. AFP

Ástralski knattspyrnumaðurinn Tim Cahill er farinn að láta til sín taka með bandaríska liðinu New York Red Bulls, sem fékk hann frá Everton á dögunum.

Cahill lék sinn annan leik með liðinu í nótt þegar það tók á móti Houston Dynamo í toppslag í Austurdeild MLS og lagði upp bæði mörkin í góðum sigri, 2:0, sem kom New York aftur í efsta sætið.

Cahill lagði mörkin upp fyrir Svíann Marcus Holgersson, sem kom til liðsins frá Helsingborg í vetur, og Norðmanninn Jan Gunnar Solli sem var lengi samherji margra Íslendinga hjá Brann. Það var samvinna hjá Cahill og Frakkanum gamalkunna Thierry Henry sem lagði grunninn að síðara markinu.

Guðlaugur Victor Pálsson var meðal varamanna New York í leiknum en kom ekkert við sögu að þessu sinni. Hann hefur spilað 16 af 24 leikjum liðsins á tímabilinu.

New York er með 41 stig á toppi Austurdeildar MLS en Houston Dynamo og Sporting Kansas City eru á hælum liðsins með 40 stig hvor.

mbl.is