Kolbeinn tryggði Íslandi sigurinn

Íslenska landsliðið í fótbolta vann það færeyska, 1:0, í vináttulandsleik á Laugardalsvelli í kvöld en eina mark leiksins skoraði Kolbeinn Sigþórsson á 65. mínútu leiksins.

Fyrri hálfleikurinn var afar daufur en Alfreð Finnbogason fékk engu að síður tvö dauðafæri sem hann nýtti ekki. Gunnar Nielsen í marki Færeyja átti stórleik í kvöld en hann var eitt sinn á mála hjá Manchester City. Gunnar sá um að ekki fór verr fyrir gestunum í kvöld.

Gerðar voru fjórar breytingar í hálfleik og spilaði Ísland mun meiri sóknarbolta í seinni hálfleik. Allt annað var að sjá liðið sem setti pressu á gestina og uppskar mark þegar Kolbeinn Sigþórsson fékk skot Birkis Bjarnasonar í sig og af honum fór boltinn í netið. Eiður Smári lagði upp færið fyrir Birki.

Jóhann Berg fékk svo gott færi til að bæta við marki þegar hann slapp einn í gegnum vörnina og það sama gerði Kolbeinn Sigþórsson í uppbótartíma. Íslenska liðið var mun betri aðilinn í kvöld en hefði mátt gera betur í vítateig gestanna.

Nánari umfjöllun verður um leikinn í Morgunblaðinu í fyrramálið en viðtöl koma inn á mbl.is síðar í kvöld. Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu hér á mbl.is en hana má lesa hér að neðan.

Lið Íslands: (4-4-2) Mark: Gunnleifur Gunnleifsson. Vörn: Hallgrímur Jónasson, Sölvi Geir Ottesen, Kári Árnason, Kristinn Jónsson. Miðja: Birkir Bjarnason, Helgi Valur Daníelsson, Emil Hallfreðsson, Jóhann Berg Guðmundsson. Sókn: Alfreð Finnbogason, Kolbeinn Sigþórsson.
Varamenn: Hannes Þór Halldórsson (m), Birkir Már Sævarsson, Hjálmar Jónsson, Ragnar Sigurðsson, Gylfi Þór Sigurðsson, Jóhann Laxdal, Ólafur Ingi Skúlason, Arnór Smárason, Rúrik Gíslason, Eiður Smári Guðjohnsen, Ari Freyr Skúlason.

Lið Færeyja: (4-4-2) Mark: Gunnar Nielsen. Vörn: Atli Gregersen, Jónas Tór Næs, Rógvi Baldvinsson, Viljormur Davidsen. Miðja: Christian Mouritsen, Fróði Benjamínsson, Heini Vandsdal, Hallur Hansson. Sókn: Arnbjörn Hansen, Jóan Símun Edmundsson.
Varamenn: Teitur Gestsson (m), Hans Jörgensen (m), Erling Jacobsen, Pól Jóhannus Justiniusen, Karl Lökin, Leif Niclasen, Kaj Leo í Bartalsstovu, Páll Klettskarð.

Ísland 1:0 Færeyjar opna loka
90. mín. Uppbótartími verður að minnsta kosti þrjár mínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert