Messi fór afar illa með Chelsea

Ousmane Dembele fagnar með Lionel Messi í kvöld en báðir ...
Ousmane Dembele fagnar með Lionel Messi í kvöld en báðir skoruðu þeir í fyrri hálfleik gegn Chelsea. AFP

Barcelona tryggði sér í kvöld sæti í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu eftir öruggan 3:0 sigur á Chelsea. Börsungar unnu einvígið samtals 4:1.

Barcelona setti tóninn strax í upphafi, bókstaflega, því eftir tvær mínútur og átta sekúndur skoraði Lionel Messi fyrsta mark leiksins þegar hann kláraði afar þröngt færi framhjá Thibaut Courtois í marki Chelsea. Þetta var fljótasta mark sem Messi hefur skorað á ferlinum.

Chelsea sótti mikið eftir þetta en var refsað með skyndisókn á 20. mínútu. Ousmane Dembele, ungstirnið sem leysti Neymar af hólmi, skoraði þá með þrumuskoti upp í þaknetið. Marcos Alonso átti tilraun úr aukaspyrnu í stöngina undir lok fyrri hálfleiks, en staðan að honum loknum var 2:0.

Chelsea-menn komu dýrvitlausir til leiks eftir hlé og sóttu stíft án þess þó að ná að setja mark sitt á leikinn. Það var svo fyrrnefndur Messi sem gerði endanlega út um leikinn á 63. mínútu. Hann sýndi þá snilli sína enn einu sinni úr þröngu færi og kom Barcelona í 3:0.

Einvíginu var lokið eftir þetta og mörkin urðu ekki fleiri. Barcelona er því komið í 8-liða úrslitin samanlagt 4:1 en Chelsea er úr leik.

Barcelona 3:0 Chelsea opna loka
90. mín. Leik lokið Barcelona vinnur öruggan sigur og er komið áfram í Meistaradeildinni en Chelsea er þriðja enska liðið á eftir Tottenham og Man. Utd sem er slegið út á þessu stigi keppninnar.
mbl.is