Allir frá Sarpsborg elska Vestmannaeyjar

Leikmenn Sarpsborgar fagna í kvöld.
Leikmenn Sarpsborgar fagna í kvöld. Ljósmynd/Óskar Pétur

Geir Bakke, þjálfari Sarpsborg 08, var virkilega sáttur með leik sinna manna gegn ÍBV í fyrri leik liðanna í undankeppni Evrópudeildarinnar í kvöld. Leiknum lauk með 0:4 sigri gestanna sem spiluðu frábærlega í seinni hálfleik eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik.

„Í fyrri hálfleik var þetta bara 50/50, en í seinni hálfleiknum lögðum við okkur meira fram og höfðum miklu meiri stjórn á leiknum. Við vorum örlítið betri á síðasta þriðjungnum,“ sagði Bakke og glotti en gestirnir sýndu mikil gæði á síðasta þriðjungi vallarins í síðari hálfleik.

Eyjamenn vildu fá rautt spjald á Joonas Tamm undir lok fyrri hálfleiks þegar Shahab Zahedi féll við fyrir utan vítateig. Dómarinn sá ekkert athugavert við það en sjónvarpsupptökur sýna að Tamm stjakaði við Shahab áður en hann féll til jarðar og hefði því átt að vera rekinn af velli.

„Ég veit það ekki, frá mínu sjónarhorni var erfitt að sjá þetta og þetta var atvik sem hefði getað verið rautt spjald en það var einnig hægt að sleppa því. Leikurinn hefði auðvitað breyst ef við hefðum misst mann af velli, þá hefðum við þurft að loka leiknum og fara heim með jafntefli.“

Bakke sagði Eyjamenn vera leikna með boltann en að lítið í þeirra leik hafi komið Sarpsborg á óvart.

„Þeir eru með leikmenn sem eru góðir á boltanum og eru með gott viðhorf, þeir eru góðir í fótbolta. Við spiluðum þó betur en ÍBV og náðum að loka á þeirra bestu leikmenn.“

Bakke hrósaði stuðningsmönnum Sarpsborgar sem lögðu land undir fót og skelltu sér til Vestmannaeyja í blíðunni í dag. Hátt í 100 stuðningsmenn þeirra voru á leiknum og skemmtu sér konunglega allan leikinn.

„Þeir eru frábærir, að vanda. Landslagið hér er fullkomið, ég labbaði hér um í þrjá klukkutíma fyrr í dag og þetta er svo fallegt. Þetta er öðruvísi staður og nú elska allir frá Sarpsborg þennan stað.“

Leikurinn var sá fyrsti sem Sarpsborg 08 spilar í Evrópukeppni og því má tala um algjöra draumabyrjun.

„Við erum mjög ánægðir núna og þetta gefur okkur tækifæri til þess að spila leikmönnum sem hafa ekki fengið eins mikinn spiltíma og aðrir á þessari leiktíð í næsta leik. Við erum með marga góða leikmenn sem byrjuðu ekki þennan leik og gefum þeim því tækifæri í næsta leik.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert