Með þrefalt hærri laun en sá næsti

Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. AFP

Það kemur örugglega fáum á óvart að Cristiano Ronaldo er launahæsti leikmaðurinn í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu en Portúgalinn yfirgaf Evrópumeistara Real Madrid og samdi við Ítalíumeistara Juventus.

Juventus reiddi fram 100 milljónir evra þegar það fékk hann frá Real Madrid í sumar og Portúgalinn ætti að eiga fyrir salti í grautinn. Samkvæmt heimildum ítalska blaðsins Gazzetta dello Sport fær Ronaldo 31 milljón evra í laun á ári sem jafngildir 3,9 milljörðum króna. Hann fær þrefalt hærri laun en næstlaunahæsti leikmaður deildarinnar, framherjinn Gonzalo Higuain, sem var í sumar lánaður frá Juventus til AC Milan. Árslaun Higuains eru 9,5 milljónir evra, 1,2 milljarðar króna.

Ronaldo á enn eftir að skora sitt fyrsta mark fyrir Juventus í deildinni en það hefur þó ekki komið að sök því meistararnir eru með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir og tróna einir á toppi deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert