Getum ekkert grenjað yfir þessu

Luka Modric og samherjar hans í króatíska landsliðinu lágu flatir ...
Luka Modric og samherjar hans í króatíska landsliðinu lágu flatir fyrir Spánverjum í kvöld. AFP

„Við getum ekki grenjað yfir þessu. Við verðum bara að bæta okkur,“ sagði Zlatko Dalic, landsliðsþjálfari Króata, eftir 6:0 skell gegn Spánverjum í Þjóðadeild UEFA í knattspyrnu í kvöld.

Silfurliðið frá því á HM í sumar sá aldrei til sólar í leiknum og tapið í kvöld var það stærsta frá upphafi hjá Króötum.

„Spánverjarnir nýttu öll sín færi. Eftir fyrsta markið misstum við einbeitingu. Við reyndum að gera hlutina of hratt og leikskipulagið fór úr skorðum hjá okkur. Eftir annað markið var leikurinn búinn fyrir okkur,“ sagði Dalic en króatíska landsliðið lék virkilega vel undir hans stjórn á HM í Rússlandi þar sem það lagði meðal annars Íslendinga 2:1 á leið sinni í úrslitaleikinn þar sem það tapaði fyrir Frökkum.

mbl.is