Verður stór leikur fyrir mig

Arnór Ingvi fagnar marki í leiknum gegn Kalmar.
Arnór Ingvi fagnar marki í leiknum gegn Kalmar. Ljósmynd/twitter-síða Malmö

Landsliðsmaðurinn Arnór Ingvi Traustason, leikmaður sænska úrvalsdeildarliðsins Malmö, mætir á sinn gamla heimavöll í kvöld þegar Norrköping tekur á móti Malmö í deildinni.

Arnór Ingvi var 19 ára gamall þegar hann kom til Norrköping. Hann lék með liðinu í tvö og hálft ár og varð meistari með því árið 2015. Hann fór frá Norrköping til austurríska liðsins Rapid Vin, var síðan lánaður til AEK í Grikklandi en samdi svo við Malmö í desember á síðasta ári.

„Ég hugsaði um þennan leik í gær. Lengi vel var þetta bara dagsetning á dagatalinu en þetta er stór leikur fyrir mig. Malmö er stærri klúbbur. Ef maður gerir mistök hjá Norrköping er það ekki í lagi en þú spilar næsta leik. Hjá Malmö má maður ekki eigan slæman leik. Þeir vilja fá það besta út úr þér í hverjum leik og á æfingum,“ segir Arnór Ingvi í viðtali við sænska blaðið Sydsvensken.

Arnór átti frábæran með Malmö á dögunum þegar liðið vann stórsigur gegn Kalmar 4:0. Arnór skoraði tvö af mörkum sinna manna og var útnefndur maður leiksins.

Það verður sannkallaður Íslendingaslagur á heimavelli Norrköping í kvöld því með liði Norrköping leikur Guðmundur Þórarinsson. Norrköping er í öðru sæti deildarinnar, tveimur stigum á undan Malmö sem er í fjórða sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert