Heimamenn í úrslit eftir vítakeppni

Liðsmenn Al-Ain fagna innilega.
Liðsmenn Al-Ain fagna innilega. AFP

Al-Ain frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum komst í dag í úrslitaleik heimsmeistaramóts félagsliða í fótbolta með óvæntum sigri á River Plate frá Argentínu í undanúrslitum. Leikið er á heimavelli Al-Ain. 

Svíinn Marcus Berg kom Al-Ain yfir eftir aðeins þrjár mínútur en tæpu korteri seinna var staðan orðin 2:1, River Plate í vil, eftir að Rafael Borré skoraði tvö mörk. Staðan í hálfleik var því 2:1, Rivier Plate í vil. 

Caio jafnaði leikinn á 51. mínútu með skoti af stuttu færi. Gonzalo Martínez fékk svo gullið tækifæri til að koma River aftur yfir en hann brenndi af vítaspyrnu á 69. mínútu og var staðan eftir venjulegan leiktíma 2:2. 

Ekkert var skorað í framlengingu og réðust úrslitin því í vítakeppni. Í henni skoraði Al-Ain úr öllum fimm spyrnum sínum en Enzo Pérez nýtti ekki sína spyrnu og Al-Ain fagnaði sigri. Liðið mætir Asíumeisturum Kashima Antlers frá Japan eða Evrópumeisturum Real Madrid frá Spáni í úrslitum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert