Gott að hafa þjálfara sem hefur mikla trú á manni

Matthías í höfuðstöðvum Vålerenga í dag.
Matthías í höfuðstöðvum Vålerenga í dag. Ljósmynd/vif-fotball.no

„Strax eftir áramótin fóru af stað viðræður um félagaskiptin og ég er bara mjög ánægður að vera búinn að semja við Vålerenga og takast á við nýja áskorun á ferli mínum,“ sagði Matthías Vilhjálmsson í samtali við mbl.is í dag en hann skrifaði í dag undir tveggja og hálfs árs samning við norska úrvalsdeildarliðið Vålerenga.

Matthías er 31 árs gamall sóknarmaður sem hefur leikið með Rosenborg frá árinu 2015 og óhætt er að segja að hafi átt velgengni að fagna með liðinu. Matthías varð fjórum sinnum norskur meistari með Rosenborg og þrisvar sinnum bikarmeistari.

„Þetta er búinn að vera fáránlega góður tími hjá Rosenborg og ég er ótrúlega þakklátur og stoltur af tíma mínum með liðinu,“ sagði Matthías, sem lék alls 109 leiki með Rosenborg og skoraði í þeim 28 mörk. Hann varð fyr­ir því óláni að slíta kross­band í hné í ág­úst 2017 og á síðustu leiktíð sat hann mikið á bekkn­um og kom aðeins við sögu í sjö leikj­um með liðinu í úr­vals­deild­inni.

Ætla að koma sterkur til baka

„Þetta voru einu meiðslin mín hjá Rosenborg en það voru því miður langtímameiðsli. Ég horfði á tímabilið 2018 að koma mér aftur í gang og lít á komandi tímabil þar sem ég ætla að koma sterkur til baka. Vålerenga er stærsta félagið í Ósló. Þetta er mjög stórt og öflugt félag sem hefur verið í smá niðursveiflu síðustu árin en það ætlar sér stóra hluti á komandi árum og mig langar að taka þátt í því,“ sagði Ísfirðingurinn, sem lék með FH áður en hann fór út í atvinnumennskuna 2013 þegar hann gekk í raðir norska liðsins Start. Matthías vann þrjá Íslandsmeistaratitla með FH og varð í tvígang bikarmeistari með liðinu. Matthías hefur spilað 15 leiki með A-landsliðinu og hefur í þeim skorað tvö mörk.

„Þjálfarinn Ronny Deila sýndi mjög mikinn áhuga á að fá mig og það var stór þátt í þeirri ákvörðun minni að semja við liðið. Það er gott að hafa þjálfara sem hefur mikla trú á manni. Liðið er nokkuð ungt að árum og það vill fá leikmenn sem eru með reynslu og getað tekið á því ef liðið lendir í mótlæti,“ sagði Matthías en Vålerenga hafnaði í sjötta sæti á síðustu leiktíð. Liðið hefur fimm sinnum hampað norska meistaratitlinum, síðast árið 2005, og bikarmeistaratitlinum fjórum sinnum, síðast árið 2008. Deila tók við þjálfun Vålerenga árið 2017 en hann gerði Strømsgodset að norskum meisturum árið 2013 og þá varð skoska liðið Celtic tvívegis meistari undir hans stjórn, 2015 og 2016.

Landsliðsmaðurinn Samúel Kári Friðjónsson er leikmaður Vålerenga en hann kom við sögu í 17 deildarleikjum með liðinu á síðustu leiktíð.

Matthías flytur einn til höfuðborgarinnar til að byrja með en eiginkona hans og börn munu koma til hans þegar skólagöngunni lýkur í vor. Keppni í norsku úrvalsdeildinni hefst í apríl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert