Neitar að hafa átt vélina sem hvarf

Almenningur hefur lagt blóm og kerti að mynd af Emiliano ...
Almenningur hefur lagt blóm og kerti að mynd af Emiliano Sala fyrir utan æfingasvæði Nantes. AFP

Nýjar upplýsingar hafa komið fram um flugvélina sem átti að flytja Emiliano Sala, nýjasta leikmann Cardiff í ensku úrvalsdeildinni, frá Nantes í Frakklandi til Wales. Ekkert hefur spurst til vélarinnar síðan hún hvarf af ratsjám yfir Ermarsundi á mánudagskvöld.

Eins og fram kom á mbl.is í morgun hafnaði Sala þeirri ferðatilhögun sem forráðamenn Cardiff buðu honum og valdi þess í stað að fljúga beint frá Nantes til Cardiff. Margir hafa furðað sig á því að slíkt hafi verið gert í lítilli eins hreyfils vél, sem varð til þess að forráðamenn Cardiff þurftu að árétta að vélin hafi ekki verið á þeirra vegum.

Umboðsmaður að nafni Mark McKay hefur nú sent frá sér yfirlýsingu sem segir að hann hafi skipulagt flugið. McKay var milliliður Sala og umboðsmanns hans, Meissa N‘Diaye, og var með puttana í félagaskiptum Sala til Cardiff. Sala og N‘Diaye settu sig í samband við hann varðandi mögulegt flug á milli.

„Ég get staðfest að þegar Emiliano sagðist vilja fljúga aftur til Nantes og til baka eftir að hann skrifaði undir samninginn [við Cardiff] fór ég að skoða möguleikann á að fljúga honum í einkavél. Ég fann vél sem hægt var að nota til þess að fljúga til Nantes og þar gæti hún beðið þar til hann ætlaði að fljúga aftur til Cardiff,“ sagði McKay.

Orðrómur var uppi um að McKay sjálfur hefði átt flugvélina, eða hún væri í eigu fjölskyldu hans, en faðir hans er þekktur í umboðsmannabransanum. Hann vann meðal annars með Joey Barton en var lýstur gjaldþrota árið 2015.

„Þrátt fyrir umfjöllun þess efnis þá vil ég að það sé á hreinu að flugvélin sem um ræðir í þessu hræðilega atviki var ekki í minni eigu eða neins í fjölskyldu minni. Ég vildi bíða með að tjá mig svo athyglin gæti verið á leitinni að Emiliano Sala og flugmanninum. Ég þekkti Emiliano vel, hann var yndislegur einstaklingur og ég tel mig lánsaman að hafa þekkt hann,“ sagði McKay í yfirlýsingunni.

mbl.is