Jón Guðni hálfri mínútu frá 8-liða úrslitum

Jón Guðni Fjóluson, númer 3, fagnar Magomed Suleymanov ásamt samherjum …
Jón Guðni Fjóluson, númer 3, fagnar Magomed Suleymanov ásamt samherjum sínum eftir markið glæsilega. AFP

Jón Guðni Fjóluson og samherjar í rússneska liðinu Krasnodar voru hálfri mínútu frá því að komast í átta liða úrslit Evrópudeildarinnar í fótbolta þegar þeir mættu Valencia frá Spáni frammi fyrir 35 þúsund áhorfendum í Krasnodar í kvöld.

Fyrri leikur liðanna á Spáni fór 2:1 fyrir Valencia og markið sem Rússarnir gerðu seint í þeirri  viðureign gáfu þeim aukna von fyrir síðari leikinn á sínum heimavelli.  Spánverjarnir virtust ætla að halda fengnum hlut en á 85. mínútu skoraði hinn 19 ára gamli Magomed-Shapi Suleimanov stórglæsilegt mark með skoti frá hægra vítateigshorni upp í samskeytin fjær, 1:0.

Allt benti til þess að Krasnodar væri að komast áfram á útimarkinu dýrmæta en þegar hálf mínúta var eftir af uppbótartíma jafnaði Goncalo Guedes fyrir Valencia, 1:1, og tryggði sínu liði sæti í átta liða úrslitum, 3:2 samanlagt.

Jón Guðni lék allan tímann í miðri vörn Krasnodar og átti prýðisgóðan leik.

Napoli er einnig komið í átta liða úrslit þrátt fyrir 3:1 tap gegn Salzburg í Austurríki. Napoli vann fyrri leikinn á Ítalíu, 3:0, og komst yfir á 14. mínútu í kvöld þegar Pólverjinn Arkadiusz Milik skoraði. Munas Dabbur, Fredrik Gulbrandsen og Christoph Leitgeb svöruðu fyrir Salzburg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert