Jón Guðni hálfri mínútu frá 8-liða úrslitum

Jón Guðni Fjóluson, númer 3, fagnar Magomed Suleymanov ásamt samherjum ...
Jón Guðni Fjóluson, númer 3, fagnar Magomed Suleymanov ásamt samherjum sínum eftir markið glæsilega. AFP

Jón Guðni Fjóluson og samherjar í rússneska liðinu Krasnodar voru hálfri mínútu frá því að komast í átta liða úrslit Evrópudeildarinnar í fótbolta þegar þeir mættu Valencia frá Spáni frammi fyrir 35 þúsund áhorfendum í Krasnodar í kvöld.

Fyrri leikur liðanna á Spáni fór 2:1 fyrir Valencia og markið sem Rússarnir gerðu seint í þeirri  viðureign gáfu þeim aukna von fyrir síðari leikinn á sínum heimavelli.  Spánverjarnir virtust ætla að halda fengnum hlut en á 85. mínútu skoraði hinn 19 ára gamli Magomed-Shapi Suleimanov stórglæsilegt mark með skoti frá hægra vítateigshorni upp í samskeytin fjær, 1:0.

Allt benti til þess að Krasnodar væri að komast áfram á útimarkinu dýrmæta en þegar hálf mínúta var eftir af uppbótartíma jafnaði Goncalo Guedes fyrir Valencia, 1:1, og tryggði sínu liði sæti í átta liða úrslitum, 3:2 samanlagt.

Jón Guðni lék allan tímann í miðri vörn Krasnodar og átti prýðisgóðan leik.

Napoli er einnig komið í átta liða úrslit þrátt fyrir 3:1 tap gegn Salzburg í Austurríki. Napoli vann fyrri leikinn á Ítalíu, 3:0, og komst yfir á 14. mínútu í kvöld þegar Pólverjinn Arkadiusz Milik skoraði. Munas Dabbur, Fredrik Gulbrandsen og Christoph Leitgeb svöruðu fyrir Salzburg.

mbl.is