Hlægilegt að sjá svartan leikmann

Ari er brasilískur en er kominn með rússneskan ríkisborgararétt og …
Ari er brasilískur en er kominn með rússneskan ríkisborgararétt og er byrjaður að spila með landsliðinu. AFP

Rússneski knattspyrnumaðurinn Pavel Pogrebnjak, sem áður lék með ensku liðunum Fulham og Reading, gæti átt yfir höfði sér langt bann fyrir ummæli sín um litarhátt rússneskra landsliðsmanna.

Pogrebnjak, sem nú leikur með rússneska liðinu Ural, var í viðtali við Komsomolskaja Pravda þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að Rússar ættu ekki að tefla fram útlendingum í landsliði sínu. Þar tiltók hann sérstaklega Brasilíumennina Mario Fernandes, sem leikur með CSKA Moskva, og Ari, sem leikur með Krasnodar, en þeir eru báðir orðnir rússneskir ríkisborgarar og hafa leikið fyrir hönd Rússlands.

„Ég sé ekki tilganginn. Ég skil engan veginn hvers vegna Ari fékk rússneskt vegabréf. Það er hlægilegt að sjá svartan leikmann í landsliði Rússlands. Mario Fernandes er frábær leikmaður. En við eigum Igor Smolnikov í hans stöðu. Við komumst vel af án útlendinga,“ sagði Pogrebnjak.

Pavel Pogrebnjak í landsleik. Hann er 35 ára og lék …
Pavel Pogrebnjak í landsleik. Hann er 35 ára og lék 33 landsleiki fyrir Rússland. CHRISTOF STACHE

Mikhail Fedotov, formaður mannréttindanefndar Vladimirs Pútíns, forseta Rússlands, sagði við sjónvarpsstöðina Moskva 360 að ummæli Pogrebnjaks væru ámælisverð. „Ég tel að allir góðir knattspyrnumenn með rússneskan ríkisborgararétt eigi rétt á því að spila fyrir hönd Rússlands. Litarháttur, augu, hár eða hvað sem er annað skiptir engu máli. Þetta ætti að vera öllum augljóst,“ sagði Fedotov.

Tíu leikja keppnisbann?

Rússneski íþróttavefmiðillinn sports.ru segir að Pogrebnjak geti átt yfir höfði sér tíu leikja keppnisbann og yfirmaður kynþáttafordómamála rússneska knattspyrnusambandsins segir að verið sé að skoða málið með tilliti til refsingar.

Sjálfur hefur Pogrebnjak reynt að draga úr ummælum sínum og sagði við Sport24 að hann hefði sjálfur leikið erlendis og bæri virðingu fyrir öllum leikmönnum.

„Ég hef ekkert á móti svörtum leikmönnum. Í þessu viðtali vildi ég bara árétta mína persónulegu skoðun, að ég vildi sjá í rússneska landsliðinu leikmenn sem væru fæddir og uppaldir í landinu. Það var allt og sumt. Ég ætlaði ekki að móðga neinn,“ sagði Pogrebnjak.

Grigorij Ivanov, forseti Ural, hefur lýst því yfir að félagið standi með sínum leikmanni og fullyrti að flestir rússneskir knattspyrnumenn væru á sömu skoðun og hann.

mbl.is