Ekkert mark úr 47 skotum

Gian Piero Gasperini þjálfari Atalanta horfði upp á árangurslausa skothríð ...
Gian Piero Gasperini þjálfari Atalanta horfði upp á árangurslausa skothríð sinna manna í kvöld. AFP

Óvenjulegt met var sett í ítalska fótboltanum í kvöld þegar Atalanta tók á móti Empoli í A-deildinni þar í landi.

Heimamenn í Atalanta eru í hörðum slag um Evrópusæti og hefðu með sigri í kvöld farið upp fyrir Roma og í fimmta sæti deildarinnar. Empoli situr hins vegar í fallsæti og var fyrir leikinn í kvöld þremur stigum frá því að ná næsta liði, Bologna.

Atalanta hélt uppi sannkallaðri stórskotahríð að marki Empoli frá upphafi til enda. Þegar flautað var til leiksloka höfðu leikmenn liðsins átt 47 marktilraunir, 18 þeirra á markið, og því náð að skjóta að marki Empoli á um það bil annarri hverri mínútu.

Þrátt fyrir það endaði leikurinn 0:0.

Bartlomiej Dragowski, 21 árs gamall Pólverji, varði mark Empoli en hann er þar í láni frá Fiorentina. Sá pólski varði 17 sinnum í leiknum, þar af sex sinnum á glæsilegan hátt. Hann snerti boltann 67 sinnum í leiknum og aðeins einn samherja hans kom oftar við sögu.

Þessi skothríð er nýtt met í fimm sterkustu deildum Evrópu frá því föst markskotatalning hófst árið 2006. Ekkert lið hefur skotið 47 sinnum að marki, ekki einu sinni Real Madrid þegar liðið vann Rayo Vallecano 10:2 á Spáni árið 2015. Þá voru markskot liðsins aðeins 30.

mbl.is