Ævintýri eyríkisins er á enda

Túnisbúar fagna einu markanna gegn Madagaskar í kvöld.
Túnisbúar fagna einu markanna gegn Madagaskar í kvöld. AFP

Ævintýralegu gengi karlalandsliðs Madagaskar í fótbolta lauk í Egyptalandi í kvöld þegar liðið beið lægri hlut fyrir Túnis, 3:0, í átta liða úrslitum Afríkumótsins.

Madagaskar hefur aldrei áður komist í lokakeppni mótsins og kom enn frekar á óvart með því að fara áfram úr riðlakeppninni. Eyríkið sló síðan Kongó út í sextán liða úrslitum keppninnar en lenti á vegg í kvöld. Staðan var þó 0:0 fram í síðari hálfleik en þá skoruðu Ferjani Sassi og Youssef Msakni með stuttu millibili og Naim Sliti skoraði þriðja mark Túnis í uppbótartíma.

Alsír varð fjórða og síðasta liðið til að komast í undanúrslit með því að vinna Fílabeinsströndina í vítaspyrnukeppni eftir 1:1 jafntefli. Sofiane Feghouli kom Alsír yfir á 20. mínútu og liðið brenndi af vítaspyrnu í byrjun síðari hálfleiks. Jonathan Kodjia jafnaði fyrir Fílabeinsströndina á 62. mínútu, 1:1, og þar við sat þar til í vítakeppninni.

Í undanúrslitunum á sunnudaginn leikur Alsír við Nígeríu og Senegal við Túnis.

Lið Madagaskar sem hefur notið mikilla vinsælda víða um heim ...
Lið Madagaskar sem hefur notið mikilla vinsælda víða um heim fyrir frammistöðu sína í Egyptalandi. AFP
mbl.is