Ævintýri eyríkisins er á enda

Túnisbúar fagna einu markanna gegn Madagaskar í kvöld.
Túnisbúar fagna einu markanna gegn Madagaskar í kvöld. AFP

Ævintýralegu gengi karlalandsliðs Madagaskar í fótbolta lauk í Egyptalandi í kvöld þegar liðið beið lægri hlut fyrir Túnis, 3:0, í átta liða úrslitum Afríkumótsins.

Madagaskar hefur aldrei áður komist í lokakeppni mótsins og kom enn frekar á óvart með því að fara áfram úr riðlakeppninni. Eyríkið sló síðan Kongó út í sextán liða úrslitum keppninnar en lenti á vegg í kvöld. Staðan var þó 0:0 fram í síðari hálfleik en þá skoruðu Ferjani Sassi og Youssef Msakni með stuttu millibili og Naim Sliti skoraði þriðja mark Túnis í uppbótartíma.

Alsír varð fjórða og síðasta liðið til að komast í undanúrslit með því að vinna Fílabeinsströndina í vítaspyrnukeppni eftir 1:1 jafntefli. Sofiane Feghouli kom Alsír yfir á 20. mínútu og liðið brenndi af vítaspyrnu í byrjun síðari hálfleiks. Jonathan Kodjia jafnaði fyrir Fílabeinsströndina á 62. mínútu, 1:1, og þar við sat þar til í vítakeppninni.

Í undanúrslitunum á sunnudaginn leikur Alsír við Nígeríu og Senegal við Túnis.

Lið Madagaskar sem hefur notið mikilla vinsælda víða um heim …
Lið Madagaskar sem hefur notið mikilla vinsælda víða um heim fyrir frammistöðu sína í Egyptalandi. AFP
mbl.is