Táningur United sá um Inter

Marcus Rashford reynir að stinga af Stefan de Vrij í …
Marcus Rashford reynir að stinga af Stefan de Vrij í Singapúr í dag. AFP

Manchester United og Inter mættust í æfingaleik í knattspyrnu í Singapúr í dag en enska félagið hafði betur í viðureigninni, 1:0.

Viðureignin var nokkuð áhugaverð í ljósi þess að United er nýbúið að hafna kauptilboði frá Inter í sóknarmanninn Romelu Lukaku en Belginn var ekki með í dag og er framtíðin hans óráðin hjá enska félaginu. Það var svo Mason Greenwood, 17 ára framherji, sem fékk tækifæri í síðari hálfleik og hann skoraði sigurmarkið á 76. mínútu með föstu vinstrifótarskoti.

Greenwood hefur heldur betur verið að sýna sig í sumar en hann skoraði einnig í æfingaleik gegn Leeds á dögunum og þá sagði Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri liðsins, að vel kæmi til greina að nota unglinginn í úrvalsdeildinni í vetur.

Þótt aðeins eitt mark hafi litið dagsins ljós spilaði lið United vel í dag og hefði hæglega getað bætt við mörkum en Samir Handanovic lék afbragðs vel í marki Ítalanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert