Englendingar skoruðu sjö og fara á EM

Harry Kane skorar þriðja markið sitt.
Harry Kane skorar þriðja markið sitt. AFP

England tryggði sér í kvöld sæti í lokakeppni EM karla í fótbolta 2020 með 7:0-risasigri á Svartfjallalandi á Wembley í A-riðli undankeppninnar.

Harry Kane skoraði þrennu fyrir enska liðið og þeir Alex Oxlade-Chamberlain, Marcus Rashford og Tammy Abraham skoruðu einnig. Eitt markanna var sjálfsmark.

Tékkland er einnig komið í lokakeppina eftir 2:1-heimasigur á Kósóvó. Atdhe Nuhiu kom Kósóvó yfir á 50. mínútu en Alex Král og Ondrej Celustka snéru taflinu við fyrir Tékka.

Portúgal og Serbía berjast um annað sæti B-riðils á sunnudaginn kemur. Portúgal vann 6:0-sigur á Litháen á útivelli. Cristiano Ronaldo skoraði þrennu fyrir Portúgal og Pizzi, Concalo Paciencia og Bernardo Silva skoruðu einnig.

Serbía vann 3:2-sigur á Lúxemborg. Alexandar Mitrovic gerði fyrstu tvö mörkin í leiknum en Gerson Rodrigues minnkaði muninn fyrir Lúxemborg. Nemanja Radonijic kom Serbíu aftur í tveggja marka forystu 20 mínútum fyrir leikslok en David Turpel minnkaði muninn fyrir Lúxemborg fimm mínútum síðar og þar við sat.

Úkraína hefur þegar tryggt sér toppsæti riðilsins og sæti á EM. Úkraína er með 19 stig. Portúgal er í öðru með 14 stig og Serbía í þriðja með 13 stig. Portúgal mætir Lúxemborg á sunnudag og Serbía og Úkraína eigast við.

mbl.is