Belgar skoruðu fjögur í Rússlandi

Eden Hazard skoraði tvö mörk í Rússlandi.
Eden Hazard skoraði tvö mörk í Rússlandi. AFP

Belgar tryggðu sér toppsæti I-riðils í undankeppni Evrópumóts karla í fótbolta í dag með 4:1-útisigri á Rússlandi. Bæði lið höfðu þegar tryggt sér sæti í lokakeppninni fyrir leikinn. 

Thorgan Hazard kom Belgum yfir á 19. mínútu og skoraði bróðir hans, Eden Hazard, tvö mörk á sjö mínútna kafla skömmu fyrir leikhlé og var staðan 3:0 í hálfleik. 

Romelu Lukaku breytti stöðunni í 4:0 í seinni hálfleik, áður en Georgiy Dzhikya lagaði stöðuna fyrir Rússa og þar við sat. Belgía er með 27 stig á toppi riðilsins og Rússland í öðru sæti með 21 stig. 

Wales á enn möguleika á að ná efstu tveimur sætum E-riðils eftir 2:0-útisigur á Aserbaídsjan á útivelli. Keiffer Moore og Harry Wilson skoruðu mörkin í fyrri hálfleik. Króatía er í toppsætinu með fjórtán stig, Ungverjaland í öðru sæti með tólf stig, Wales í þriðja með ellefu stig og Slóvakía í fjórða sæti með tíu stig. 

Slóvenía á enn möguleika í G-riðli eftir 1:0-sigur á Lettlandi á heimavelli. Sigurmarkið var sjálfsmark snemma í seinni hálfleik. Slóvenía er með fjórtán stig, tveimur stigum á eftir Austurríki sem er í öðru sæti með sextán stig og fimm stigum á eftir Póllandi sem er í toppsætinu. 

Þá vann Kasakstan 3:1-útisigur á San Marínó í I-riðli, en liðin eru í tveimur neðstu sætunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert